Veltan í stærri kjörnum utan höfuðborgarinnar
Veltan á fasteignamarkaði í stærri kjörnum utan höfuðborgarsvæðisins er einnig komin á góðan rekspöl eftir hrun og er veltan jafnvel meiri en ætla má að sé að jafnaði, en það eru skýringar á því. Viðskipti með fasteignir sem komust í hendur lánastofnana við hrun á fjármálamörkuðum eru óþægilega stór hluti í viðskipum flestra þessara byggðakjarna. Í þessari tölfræði er valið að skilgreina bæjarfélögin Akureyri, Akranes, Árborg og Reykjanesbæ sem kjarna. Þessi fjögur sveitarfélög ná til um 15% allra íbúðaeigna landsins. Á árunum fyrir hrun (´04 - ´08) fjölgaði íbúðum á höfuðborgarsvæðinu um 11,2%. Á sama tíma fjölgaði íbúðum á Akureyri um 13,2%, á Akranesi um 20%, í Árborg um 26% og um mun hærra hlutfall í Reykjanesbæ eða um 74% en þar hafði fjölgum íbúða vegna breytinga á varnarsvæðinu áhrif. Þessi öra fjölgun hafði örugglega áhrif á veltu á fasteignamarkaði þeirra ára sem fjölgunin átti sér stað og einnig á fjölda eigna sem fóru undir hamarinn í kjölfar hruns á fjármálamörkuðum.