Viðgerðarlán er heimilt að veita eigendum félagslegra eignaríbúða til meiriháttar utanhússviðhalds skv. V. kafla reglugerðar nr. 458/1999 um lánaflokka Íbúðalánasjóðs.
Við skýringu á félagslegri eignaríbúð skal beita 36. gr. laga nr.97/1993 um Húsnæðisstofnun ríkisins.
Lán skv. þessum kafla veitist eingöngu til viðbótar við þau lán sem þegar hvíla á íbúðinni frá Íbúðalánasjóði eða lán sem sjóðurinn hefur yfirtekið skv. eldri lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins.
Skilyrði
Skilyrði er að lánveiting sé nauðsynleg til að afstýra því að hús liggi undir skemmdum. Að öðru leyti eru skilyrði fyrir lánveitingu eftirfarandi:
- Um meiriháttar utanhússviðhald sé að ræða sem Íbúðalánasjóður samþykkir fyrirfram.
- Umsókn berist Íbúðalánasjóði áður en framkvæmdir hefjast. Umsókn fylgi kostnaðaráætlun, verklýsing, samþykki byggingarfulltrúa fyrir framkvæmdinni og yfirlýsing frá húsfélagi um framkvæmdina.
- Framkvæmdir skal fela viðurkenndum byggingarverktökum með útboðum og skal lánveiting taka mið af hagstæðasta tilboði.
- Verkið sé unnið í samræmi við verklýsingu.
- Kostnaður við utanhússviðhald falli ekki undir ákvæði um varasjóð, sbr. 2. mgr. ákvæðis VIII til bráðabirgða í lögum um húsnæðismál eða ákvæði 3. mgr. 53. gr. sömu laga.
Meiriháttar utanhússviðhald
Með meiriháttar utanhússviðhaldi er átt við:
- Þak: Endurbygging á þaki, svo sem þegar skipt er um þakklæðningu og einangrun.
- Útveggir: Sprunguviðgerðir, þéttingar og útveggjaklæðning, að veggir séu brotnir niður og steyptir upp að nýju. Um viðgerð á útidyratröppum gildir sama og um viðgerð á útveggjum.
- Gluggar: Skipti á gluggapóstum, gluggakörmum og glerjum. Skipti á opnanlegum fögum.
- Lóðarframkvæmdir: Endurnýjun á jarðvegslögnum, ef talið er nauðsynlegt að skipta um jarðveg í lóð hússins til að forða húsinu frá vatnsskemmdum.
Í þeim tilvikum eingöngu þar sem samþykkt hafa verið lán til viðgerða samkvæmt 1. - 3. tölul., er jafnframt lánað til kostnaðar vegna utanhússmálningar til sömu verkþátta. Ekki er lánað til neins konar innanhússframkvæmda eða frágangs innanhúss. Gildir það einnig um þegar frágangur innanhúss er bein afleiðing af utanhússskemmdum og viðgerðum á þeim.
Lánsfjárhæð
Hámarkslán má nema allt að 90% af samþykktum kostnaði. Innifalinn í samþykktum kostnaði er sá fjármagnskostnaður sem íbúðareigandi kann að bera vegna lántöku við framkvæmdirnar.
Lánstími og útborgun láns
Lánið kemur til útborgunar þegar Íbúðalánasjóður hefur samþykkt með úttekt sinni að verkið hafi verið unnið á þann veg sem fram kemur í verklýsingu.
Lánstími skal vera allt að 40 ár.
Hvert lán skal tryggt með 1. veðrétti í hlutaðeigandi íbúð samhliða áhvílandi láni Íbúðalánasjóðs.
Innlausn
Við innlausn félagslegra eignaríbúða eru endurbætur utanhúss metnar samkvæmt mati húsnæðisnefndar sem byggist á reglum stjórnar Íbúðalánasjóðs, sbr. 6. mgr. ákvæðis II til bráðabirgða í lögum nr. um húsnæðismál.
Yfirlýsing um ráðstöfun viðgerðaláns