- Hámarkslán er 30 milljónir að frádregnum lánum á fyrri veðréttum.
- Fasteignamat íbúðar er að hámarki 50 milljónir
- Verðtryggð jafngreiðslulán.
- Allt að 80% af kaupverði.
- Lánstími er allt að 35 ár.
- 4,2% fastir vextir
- Hámarkslán er 30 milljónir að frádregnum lánum á fyrri veðréttum.
- Fasteignamat íbúða er að hámarki 50 milljónir
- Lánað er allt að 80% af kaupverði íbúðar.
- Lánstími er allt að 35 ár.
- Vextir eru fastir, 4,2%.
- Verðtryggt
- 12 eða 4 gjalddagar á ári
- Íbúðin verður að vera til eigin nota
- Hver og einn getur aðeins átt eina íbúð með áhvílandi láni frá Íbúðalánasjóði nema í sérstökum tilfellum.
Íbúðalánasjóður veitir einstaklingum lán til kaupa, byggingar og endurbóta á íbúðarhúsnæði. Jafnframt geta þeir sem hafa skerta starfsorku, eru fatlaðir eða hreyfihamlaðir fengið aukalán vegna sérþarfa. Landsmenn hafa sama rétt til að taka lán hjá Íbúðalánasjóði, óháð búsetu.
- Nýtt lán
- Yfirtaka á láni
Yfirtaka á eldri lánum Íbúðalánasjóðs er oft hagstæður kostur, einkum ef kjör þeirra eru góð og liðið er á lánstímann. Þá getur verið hagkvæmt að yfirtaka eldri lán og taka nýtt lán til viðbótar
Hægt er að yfirtaka öll eldri lán Íbúðalánasjóðs nema lán frá Byggingarsjóði verkamanna (merkt 1003). Ekki þarf að greiða lántökugjöld við yfirtöku.
Ef eingöngu eru yfirtekin lán, en ekki óskað eftir nýju láni, er ekki gerð krafa um að lánin rúmist innan ákveðins veðhlutfalls. Ef verið er að yfirtaka lán og taka nýtt lán jafnframt þá þarf samanlögð lánsfjárhæð að rúmast innan gildandi veðhlutfalls hverju sinni.
Skilyrði fyrir yfirtökunni eru mismunandi eftir því hvaða lán eru yfirtekin.
ÍLS-veðbréf Íbúðalánasjóðs og fasteignaveðbréf Húsnæðisstofnunar
Til að fá yfirtöku ÍLS-veðbréfa og fasteignaveðabréfa húsbréfadeildar samþykkta þarf að gera greiðslumat og fylla út umsókn á netinu.
Lán Byggingarsjóðs ríkisins og veðdeildar Landsbanka Íslands
Ef eingöngu eru yfirtekin lán Byggingarsjóðs ríkisins og veðdeildar Landsbanka Íslands þarf ekki að uppfylla skilyrði um greiðslumat. Útfylla þarf sérstaka umsókn. Henni þarf að fylgja afrit af þinglýstum kaupsamningi.
Sækja þarf um yfirtöku
Nauðsynlegt er að sækja um yfirtöku ef um eigendaskipti á fasteign er að ræða. Ef það er ekki gert hefur sjóðurinn heimild til að gjaldfella lánið og er sú heimild nýtt þegar ástæða þykir til. Lán er hins vegar aldrei gjaldfellt fyrr en nýjum eiganda hefur verið gefinn kostur á að sækja um yfirtöku.
Breytist forsendur eftir að Íbúðalánasjóður hefur samþykkt skuldabréfaskiptin hefur hann líka heimild til að gjaldfella bréfið. Breyttar forsendur geta t.d. verið að sala gangi til baka, kaupandi hafi gefið rangar upplýsingar í greiðslumati (eða til sjóðsins) eða að kaupandi hafi rýrt verulega verðgildi eignarinnar.
- Lán til íbúðakaupa
Íbúðalánasjóðs veitir lán vegna kaupa á íbúð til eigin nota. Lánið getur að hámarki verið 30 milljónir króna en þó aldrei hærra en 80% af kaupverði. Ekki er gerð krafa um að lánið hvíli á 1.veðrétti en þá lækkar hámarksfjárhæð lánsins sem nemur eftirstöðvum lána sem eru framar í veðröð.
Dæmi - Nýtt lán frá Íbúðalánasjóði
- Kaupverð íbúðar er 40 millj. kr. Nýtt lán frá Íbúðalánasjóði er að hámarki 30 millj. kr. (hámarkslán).
- Kaupverð íbúðar er 24 millj. kr. Nýtt lán frá Íbúðalánasjóði er að hámarki 19,2 millj kr. (80% veðhlutfall).
Dæmi - Lán frá Íbúðalánasjóði og öðrum lánveitanda
- Kaupverð íbúðar er 40 milljónir kr. Kaupandi fjármagnar kaupin að hluta með láni frá öðrum lánveitanda á 2. veðrétti að fjárhæð 10 millj. kr. Nýtt lán Íbúðalánsjóði á 1. veðrétti er að hámarki 30 millj. kr. (hámarkslán).
- Kaupverð íbúðar er 35 milljónir kr. Kaupandi fjármagnar kaupin að hluta með láni frá öðrum lánveitanda á 1. veðrétti að fjárhæð 15 millj. kr. Nýtt lán Íbúðalánsjóði á 2. veðrétti er að hámarki 13 millj. kr. (hámarkslán að frádregnum lánum á fremri veðréttum).
- Kaupverð íbúðar er 24 millj. kr. Kaupandi fjármagnar kaupin að hluta með láni frá öðrum lánveitanda á 1. veðrétti að fjárhæð 10 millj. kr. Nýtt lán frá Íbúðalánasjóði er að hámarki 9,2 millj. kr. (80% veðhlutfall).
- Lán til nýbygginga/íbúða í smíðum
Íbúðalánasjóður lánar einstaklingum allt að 30 milljónir til nýbygginga. Lánað er allt að 80% af byggingakostnaði, frá því að íbúð er fokheld og þar til hámarksláni er náð sem er oftast við endanlegt brunabótamat eignarinnar. Athugið að lán á fyrri veðréttum dragast frá hámarkslánsfjárhæðinni.
Byggingarkostnaður er sama sem endurstofnverð íbúða að viðbættu lóðarmati. Byggingarkostnaður sem lánað er út á er fundinn skv. opinberum upplýsingum um byggingarkostnað hjá Fasteignaskrá Íslands og liggur fyrst fyrir þegar fokheldisstigi er náð, um leið og fasteignamat kemur á eignina.
Gefið er út viðaukabréf vegna lánshæfra viðbóta við íbúð, hvort sem þær eru keyptar eða byggðar. Viðbæturnar eru lánshæfar ef þær hafa hlotið samþykki byggingaryfirvalda og ef þær eru skráðar með íbúðinni í fasteignaskrá og veðmálabókum. Ef viðbæturnar er byggðar þurfa þær að vera fullbúnar þegar lánið er veitt. Ekki er lánað til byggðra viðbóta skv. kostnaðaryfirliti, heldur er lánið ákveðin prósenta af byggingarkostnaði Fasteignaskrár Íslands.
Nýbyggingalánin og viðaukabréf eru veitt í allt að 5 ár frá því að bygging er fokheld, en þó ekki eftir að 1 ár er liðið frá því að eignin var fullbúin og komið á hana endanlegt brunabótamat. Hægt er að sækja um undanþágu frá þessum skilyrðum ef um sérstakar aðstæður er að ræða.
Hægt er að gera greiðslu- og lánshæfismat og senda inn umsókn þegar eignin er orðin fokheld og endurstofnsverð komið á.
Íbúðalánasjóður getur einnig óskað eftir verðmati löggilts fasteignasala á markaðsverði íbúðarinnar eftir endurbætur eða viðbætur og má leggja það mat til grundvallar lánveitingunni skv. reglugerð nr. 522/2004 um ÍLS-veðbréf og íbúðabréf.
Yfirtaka á eldri lánum ef keypt er íbúð í smíðumHugsanlega er hægt að yfirtaka eldri lán ef keypt er íbúð í smíðum. Kjör eldri lána koma fram á söluyfirliti hjá fasteignasala. Með reiknivélinni er einfalt að reikna út hvort hagstætt er að yfirtaka eldri lán á eign. Af eldri lánum þarf ekki að greiða lántökugjöld 1%.
Ef kaupandi er þegar með lán hjá sjóðnum býðst honum að flytja það á eignina sem verið er að kaupa.
- Lán til endurbóta og viðbygginga
Lánað er til endurbóta og viðauka á sömu kjörum og bjóðast við kaup eða byggingu fasteigna eftir að framkvæmdum hefur verið lokið.
- Lánað er fyrir allt að 80% af útlögðum kostnaði við endurbætur. Ekki er lánað til eigin vinnu, né efnis eða vinnu sem umsækjendur hafa fengið að gjöf.
Skilyrði fyrir lánveitingu eru að:
- 10 ár séu frá því að fasteignin varð fokheld.
- Lánsfjárhæð sé að lágmarki 400.000 þúsund krónur, þ.e. framkvæmdakostnaður að lágmarki 500 þúsund krónur.
- Ekki mega vera liðnir meira en 12 mánuðir frá lokum endurbóta.
- Eingöngu er lánað til endurbóta á eignum með áhvílandi lánum Íbúðalánasjóðs eða veðbandslausra eigna.
* Að nýju láni meðtöldu mega lán sem hvíla á fyrri veðréttum ekki vera umfram 30 milljónir samtals.
Sótt er um lán til endurbóta eða viðauka þegar framkvæmdum/kaupum er að fullu lokið. Jafnframt þarf að senda staðfestingu á umfangi, framkvæmdakostnaði og verklokum endurbóta ( t.d. kostnaðaryfirlit ÍLS) og önnur nauðsynleg fylgigögn til Íbúðalánasjóðs (sjá neðar).
Íbúðalánasjóður mun kalla eftir frekari staðfestingu og sérstökum trúnaðarmönnum verður falið að meta markaðsverð íbúðarinnar eftir breytingar eða viðauka og byggt lánveitingu á því mati.
Þrátt fyrir þessi skilyrði er heimilt að veita lánið áður en framkvæmdir hefjast eða meðan á þeim stendur og þá gegn áætlun um umfang og kostnað framkvæmda, eðli þeirra og verklok sem staðfest er af byggingarfulltrúa eða öðrum leyfishöfum, eða gegn framvísun kaupsamnings ef um kaup er að ræða. Heimild Íbúðalánasjóðs til að afgreiða lánið áður en framkvæmdum er lokið er háð veðhæfni íbúðar samkvæmt almennum reglum sjóðsins, að teknu tilliti til framkvæmdanna. Veðsetning takmarkast af fasteignamati þar til staðfest hefur verið að framkvæmdum sé lokið. Eins þarf að skila inn ábyrgð fjármálastofnunar fyrir láninu sem fellur úr gildi þegar staðfest lok framkvæmda liggja fyrir. Skjal fyrir bankaábyrgð er útbúið af Íbúðalánasjóði en samþykkt af viðskiptabanka umsækjanda. Ábyrgðin er felld niður þegar verklok hafa verið staðfest að því tilskyldu að kostnaður sé í samræmi við þá áætlun sem lögð var fram.
Hvað telst til endurbóta?
Lánshæfar eru hvers kyns endurbætur á fasteigninni hvort sem er utanhúss eða innan. Til endurbóta getur t.d. talist endurnýjun á raf- og/eða vatnslögnum, þakviðgerðir, málningarvinna og endurnýjun eldhúsinnréttinga. Ekki er lánað til sólpalla eða lóðarframkvæmda.
Hvað er viðauki?
Allar viðbætur við íbúð, hvort sem þær eru keyptar eða byggðar, eru lánshæfar ef þær hafa hlotið samþykki byggingaryfirvalda og ef þær eru skráðar með íbúðinni í fasteignaskrá og veðmálabókum.
Ef viðauki er keyptur er kauptilboði og öðrum nauðsynlegum fylgigögnum skilað til Íbúðalánasjóðs þegar kaupin hafa gengið í gegn og búið er að skrá viðaukann með íbúðinni bæði í fasteignaskrá og veðbók.
Ef viðauki er byggður þarf hann að vera fullbúinn þegar lánið er veitt. Ekki er lánað til byggðs viðauka skv. kostnaðaryfirliti, heldur er lánið ákveðin prósenta af byggingarkostnaði skv. Þjóðskrá Íslands.
Hverjir geta staðfest kostnað og verklok?
Aðilar með leyfi frá atvinnuvegaráðuneytinu, t.d. byggingafræðingar, arkitekta-, tæknifræði- eða verkfræðistofur og byggingarfulltrúar, geta staðfest að umfang framkvæmda samkvæmt kostnaðaryfirliti sé eðlilegt og að verkinu sé lokið.
Íbúðalánasjóður óskar eftir verðmati löggilts fasteignasala á markaðsverði íbúðarinnar eftir endurbætur eða viðauka þar sem heildarlánveiting eftir endurbætur er hærri en sem svarar 80% af fasteignamati og í öðrum tilvikum þar sem lánanefnd telur ástæðu til og má leggja það mat til grundvallar lánveitingunni skv. reglugerð nr. 522/2004 um ÍLS-veðbréf og íbúðabréf.
- Hlutakaup
Hlutakaupareglan heimilar nýtt lán og yfirtöku við kaup á eignarhlut íbúðarseljanda hvort sem íbúð var áður í sameign eða ekki. Hjón og sambúðarfólk fá ekki fyrirgreiðslu vegna kaupa sín á milli á eignarhluta íbúðar nema við hjúskapar- og sambúðarslit.
Sótt er um lán á vef Íbúðalánasjóðs, ils.is, vegna kaupa á húsnæði þegar kauptilboðið hefur verið samþykkt.
Undanfari lánsumsóknar er greiðslu- og lánshæfismat. Sömu gögnum þarf að skila inn og við hefðbundna lánsumsókn. Þar að auki þarf, ef við á, að skila inn fjárskiptasamningi með staðfestingu sýslumanns um skilnað að borði og sæng eða yfirlýsingu um sambúðarslit staðfestri af sýslumanni.
- Lán til viðgerða á félagslegum íbúðum
Viðgerðarlán er heimilt að veita eigendum félagslegra eignaríbúða til meiriháttar utanhússviðhalds skv. V. kafla reglugerðar nr. 458/1999 um lánaflokka Íbúðalánasjóðs.
Við skýringu á félagslegri eignaríbúð skal beita 36. gr. laga nr.97/1993 um Húsnæðisstofnun ríkisins.
Lán skv. þessum kafla veitist eingöngu til viðbótar við þau lán sem þegar hvíla á íbúðinni frá Íbúðalánasjóði eða lán sem sjóðurinn hefur yfirtekið skv. eldri lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins.
Skilyrði
Skilyrði er að lánveiting sé nauðsynleg til að afstýra því að hús liggi undir skemmdum. Að öðru leyti eru skilyrði fyrir lánveitingu eftirfarandi:
- Um meiriháttar utanhússviðhald sé að ræða sem Íbúðalánasjóður samþykkir fyrirfram.
- Umsókn berist Íbúðalánasjóði áður en framkvæmdir hefjast. Umsókn fylgi kostnaðaráætlun, verklýsing, samþykki byggingarfulltrúa fyrir framkvæmdinni og yfirlýsing frá húsfélagi um framkvæmdina.
- Framkvæmdir skal fela viðurkenndum byggingarverktökum með útboðum og skal lánveiting taka mið af hagstæðasta tilboði.
- Verkið sé unnið í samræmi við verklýsingu.
- Kostnaður við utanhússviðhald falli ekki undir ákvæði um varasjóð, sbr. 2. mgr. ákvæðis VIII til bráðabirgða í lögum um húsnæðismál eða ákvæði 3. mgr. 53. gr. sömu laga.
Meiriháttar utanhússviðhald
Með meiriháttar utanhússviðhaldi er átt við:
- Þak: Endurbygging á þaki, svo sem þegar skipt er um þakklæðningu og einangrun.
- Útveggir: Sprunguviðgerðir, þéttingar og útveggjaklæðning, að veggir séu brotnir niður og steyptir upp að nýju. Um viðgerð á útidyratröppum gildir sama og um viðgerð á útveggjum.
- Gluggar: Skipti á gluggapóstum, gluggakörmum og glerjum. Skipti á opnanlegum fögum.
- Lóðarframkvæmdir: Endurnýjun á jarðvegslögnum, ef talið er nauðsynlegt að skipta um jarðveg í lóð hússins til að forða húsinu frá vatnsskemmdum.
Í þeim tilvikum eingöngu þar sem samþykkt hafa verið lán til viðgerða samkvæmt 1. - 3. tölul., er jafnframt lánað til kostnaðar vegna utanhússmálningar til sömu verkþátta. Ekki er lánað til neins konar innanhússframkvæmda eða frágangs innanhúss. Gildir það einnig um þegar frágangur innanhúss er bein afleiðing af utanhússskemmdum og viðgerðum á þeim.
Lánsfjárhæð
Hámarkslán má nema allt að 90% af samþykktum kostnaði. Innifalinn í samþykktum kostnaði er sá fjármagnskostnaður sem íbúðareigandi kann að bera vegna lántöku við framkvæmdirnar.
Lánstími og útborgun láns
Lánið kemur til útborgunar þegar Íbúðalánasjóður hefur samþykkt með úttekt sinni að verkið hafi verið unnið á þann veg sem fram kemur í verklýsingu.
Lánstími skal vera allt að 40 ár.
Hvert lán skal tryggt með 1. veðrétti í hlutaðeigandi íbúð samhliða áhvílandi láni Íbúðalánasjóðs.
Innlausn
Við innlausn félagslegra eignaríbúða eru endurbætur utanhúss metnar samkvæmt mati húsnæðisnefndar sem byggist á reglum stjórnar Íbúðalánasjóðs, sbr. 6. mgr. ákvæðis II til bráðabirgða í lögum nr. um húsnæðismál.
- Tímabundin yfirtaka á láni
Tímabundin yfirtaka er aðeins veitt, samkvæmt 17. gr. reglugerðar nr. 522/2004, þegar kaupandi er að verja hagsmuni sína með eftirfarandi hætti:
- Kröfuhafi kaupir fasteign eða íbúð í þeim tilgangi að verja veðkröfu sína og ætlar að selja eignina strax aftur.
- Íbúð með áhvílandi ÍLS-veðbréf eða fasteignaveðbréf er tekin sem greiðsla upp í aðra og verðmeiri íbúð.
- Riftun kaupsamnings hefur átt sér stað og eigandi þarf að fá frest til að selja eignina aftur.
Tímabundin yfirtaka er veitt til 12 mánaða og skal íbúðin seld á þeim tíma. Ef ekki reynist unnt að selja íbúðina á þeim tíma vegna óviðráðanlegra ástæðna er heimilt að framlengja tímabundna yfirtöku í allt að 12 mánuði til viðbótar.
Hafi ekki fengist kaupendur að eigninni sem Íbúðalánasjóður samþykkir sem nýja skuldara að þeim tíma liðnum áskilur sjóðurinn sér rétt til gjaldfellingar á ofangreindu láni, sbr. 16. gr. reglugerðar nr. 522/2004, um ÍLS-veðbréf og íbúðabréf.
Fylgigögn
- Veðbókarvottorð fyrir viðkomandi eign
- Kaupsamningur viðkomandi eignar
- Riftun kaupsamnings
Íbúðalánasjóður áskilur sér rétt til að kalla eftir öðrum gögnum en að framan er lýst.
Yfirtaka er ekki heimiluð fyrr en vanskil hafa verið greidd upp.
Athugið að gildistími samþykkis Íbúðalánasjóðs miðast við móttökudag undirritaðrar umsóknar.
- Aukalán vegna sérþarfa
Þeir sem hafa skerta starfsorku, eru fatlaðir eða hreyfihamlaðir geta fengið aukalán vegna sérþarfa til að gera breytingar á íbúðarhúsnæði vegna sérþarfa sinna eða til að kaupa eða byggja húsnæði sem hentar og er þess vegna dýrara en ella. Forsvarsmenn fólks í þessum hópi geta einnig fengið sérþarfalán. Aukalánið er ætlað til að koma til viðbótar almennum lánum frá Íbúðalánasjóði eða öðrum lánastofnunum.
Kjör aukalána vegna sérþarfa
Aukalán vegna sérþarfa 10.772.876 kr. að hámarki Veðsetningarhlutfall 90% af kaupverði eða byggingarkostnaði
90% af viðbótar- og endurbótakostnaðiVextir 4,20% Verðtrygging Vísitala neysluverðs Lánstími allt að 35 ár. Gjalddagar 4 eða 12 Lántökugjald 0,5% af lánsupphæðinni Þar sem aukalán vegna sérþarfa kemur til viðbótar almennu íbúðaláni Íbúðalánasjóðs getur heildarlánsupphæð orðið 40,7 milljónir króna að hámarki (kr. 30 milljónir + kr. 10,7 milljónir).
Útborgun aukaláns
Lán vegna breytinga eða viðbóta á íbúð greiðist út þegar framkvæmdum er lokið. Veðrými miðast við allt að 90% af matsverði, byggingarkostnaði eða kaupverði íbúðar eftir því sem við á.
Skilyrði fyrir aukaláni
Umsækjendur um aukalán vegna sérþarfa þurfa að sýna fram á að sérþarfirnar leiði til aukins kostnaðar við breytingar, viðbætur, byggingu eða kaup á íbúð.
Uppgreiðsla aukaláns
Þar sem aukalánið er veitt vegna sérþarfa fólks þá fellur lánið í gjalddaga og endurgreiðist að fullu við eigendaskipti íbúðar. Hið sama gildir ef lántaki flytur úr húsnæðinu og ljóst er að hann flytur ekki þangað aftur.
Skylt er að þinglýsa kvöð þessa efnis á íbúðina samhliða þinglýsingu lánsins. Stjórn Íbúðalánasjóðs getur þó heimilað aðila sem fengið hefur aukalán vegna sérþarfa að flytja það með sér við sölu íbúðar.
Umsókn þarf að fylgja ítarleg greinargerð frá umsækjanda ásamt læknisvottorði.
- Veðlánaflutningur
Íbúðalánasjóður getur heimilað veðflutning á íbúð í eigu skuldara, hvort sem um er að ræða eigendaskipti eða ekki. Skilyrði fyrir veðflutningi er að lánið sé í skilum, veðstaða lánsins eftir veðflutning sé í samræmi við reglur sjóðsins um lánveitingar og að flutningurinn leiði ekki til aukinnar áhættu fyrir sjóðinn.
Hægt er að
- Flytja öll lán Íbúðalánasjóðs á íbúð í eigu skuldara
- Ekki er skilyrði að um kaup eða sölu sé að ræða
- Breyta lánstíma veðfluttra lána í 5-35 ár
- Veðlánaflutningur er heimill ef veðsetning er undir 80%
- Í undantekningartilfellum er heimilt að veðstaða fari upp í 100%
- Flutt í ódýrari íbúð
- Flutt milli atvinnusvæða
- Ákvæði um hámarksfasteignamat á ekki við þegar um veðflutning er að ræða.
Ef um aukna lántöku er að ræða samhliða veðlánaflutningnum þarf umsækjandi að gangast undir greiðslumat.Lánið þarf að vera innan við 80% af veðrými hinnar nýju eignar. Hægt er að sækja um undanþágu frá því skilyrði við sérstakar aðstæður, þannig að veðsetning verði að hámarki 100%. Í slíkum tilvikum þarf að fara fram greiðslumat.
Ef eingöngu er óskað eftir veðflutningi en ekki nýju láni þarf lánið að rúmast innan 80% af kaupverði fasteignar.
Veðlánaflutningur getur verið hagstæðari en ný lántaka þar sem komast má hjá lántökukostnaði. Fyrir hvert skjal er tekið 10.000,- gjald. Því er bætt inn á lánið og kemur til innheimtu á næsta gjalddaga þess.
Fylgigögn:
• Samþykkt, undirritað og vottað kauptilboð beggja eigna ásamt söluyfirliti.
• Ef á við, staða lána sem hvíla áfram eiga á eigninni sem flytja á lánið á, þ.e.a.s. á undan lánum Íbúðalánasjóðs í veðröð eða afrit nýrra lána sem eiga að koma á undan lánum Íbúðalánasjóðs í veðröð.
Ef krafist er greiðslumats þarf jafnframt að skila:
• Afriti af síðasta skattframtali, staðfestu af skattstjóra.
• Staðgreiðsluyfirlit launa (hægt að nálgast á www.skattur.is).
• Staðfesting á tekjum (launaseðlar) síðustu þriggja mánaða.
• Staðfesting á eftirstöðvum og greiðslubyrði allra skulda sem við eiga.
• Staðfesting á eigin fé umsækjanda samkvæmt A-lið kauptilboðs t.d. með bankayfirliti og/eða lánsloforði frá banka eða stofnun sem á við.Ferlið:
- Skjal um veðflutning er sent umsækjenda eða fasteignasala ásamt ljósriti af frumriti skuldabréfsins (árituðu um veðlánaflutninginn).
- Skjalið þarf að undirrita og þinglýsa því á eignina sem flytja á lánið á.
- Skjalið er sent til Íbúðalánasjóðs eftir athugasemdalausa þinglýsingu.
- Íbúðalánasjóður gengur frá veðbandslausn af þeirri eign sem lánið er flutt af.
- Lántakandi þarf að láta þinglýsa veðbandslausninni.
Ef sérstaklega stendur á, svo sem vegna flutnings umsækjanda milli atvinnusvæða eða flutnings í ódýrari íbúð, er stjórn Íbúðalánasjóðs heimilt að víkja frá reglum um veðmörk fasteignar við veðlánaflutning, enda fari veðsetning ekki yfir 100% af matsverði eignarinnar. Slíka undanþágu þarf að sækja sérstaklega um til stjórnar Íbúðalánasjóðs, með greinargerð þar sem fram koma aðstæður umsækjanda og ástæður umsóknar.
- Veðleyfi án íbúðarkaupa
Íbúðalánasjóður heimilar veðsetningu, án íbúðarkaupa, á undan öllum almennum lánum nema þessum:
- ÍLS veðbréf (fyrst útgefið í júlí 2004)
- Lán frá Byggingarsjóði verkamanna
- Lán til leiguíbúða eða búseturéttaríbúða
- Óheimilt er að víkja fyrir gjaldeyrislánum
- Ekki er heimilt að víkja fyrir lánsveði (sömu aðilar þurfa að vera lántakendur og þinglýstir eigendur eignar)
Veðleyfið er heimilað ef sameiginleg uppreiknuð fjárhæð eftirstöðva lánsins og nýs láns:
- Er ekki hærri en hámarkslán á hverjum tíma, nú 30.000.000 króna.
- Fer ekki yfir 80% af markaðsverði eignarinnar.
Fylgigögn
- Ef samanlögð fjárhæð nýs láns og eldri lána Íbúðalánasjóðs fer upp fyrir 80% af fasteignamati íbúðar þarf verðmat viðkomandi eignar.
- Sé beiðnin gerð í tengslum við kaupsamning þarf ekki verðmat fasteignasala. Þá þarf að senda afrit kaupsamningsins.
- Nýtt/ný lán: Ljósrit af lánsloforði.
- Eldra lán: Útprentun á stöðu lánsins úr tölvukerfi skuldareigandans og ljósrit af skuldabréfi/-bréfum.
Ekki þarf að skila inn verðmati ef sameiginleg uppreiknuð fjárhæð eftirstöðva lána (sem færa á aftar í veðröð) og nýs láns rúmast innan 80% af fasteignamati eignarinnar. Gjald er tekið fyrir veitingu veðleyfa, kr. 3.000 fyrir hvert veðleyfi. Gjaldinu er bætt inn á lánið sem veðleyfi er veitt fyrir framan og kemur til innheimtu á næsta gjalddaga þess.
Íbúðalánasjóði er heimilt að hafna því að víkja í veðröð ef vanskil á lánunum eru slík að greiðsluáskorun hefur verið send út vegna lána sjóðsins á viðkomandi eign.
Var þessi síða gagnleg?